Copy
Fréttabréf Kötlu Jarðvangs                                                                               2. tölublað, 1. árgangur

Katla UNESCO Global Geopark
- Sterk eining með alþjóðlega vottun

Katla Geopark og sveitarfélögin sem að jarðvanginum standa (Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur) hafa gert með sér samstarfssamning um samvinnu í allri uppbyggingu áfangastaða jarðvangsins. Héðan af verður sótt um í styrktarsjóði undir merkjum Jarðvangsins. Þetta er mikilvægur liður í fastmótun Kötlu Geopark sem eina starfandi einingu með yfirsýn og stefnu fyrir svæðið í heild. Markmiðið er að uppfylla kröfur UNESCO Global Geoparks til sjálfbærni, verndunar og fræðslu innan svæðisins. Í vetur var unninn ítarlegur forgangslisti yfir þá áningarstaði innan Jarðvangsins sem þarfnast uppbyggingar og verndar vegna innleiðingar nýrra laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og forgangslista fyrir árið 2017.
Samvinnu-stefna sveitarfélaganna, sem hófst við stofnun jarðvangsins, hefur þegar skilað svæðinu forskoti á þá skipulagsvinnu og stefnumótun sem framundan er þegar unnið verður að DMP (Destination Management Plan) fyrir jarðvanginn á komandi mánuðum. Sú vinna er drifin af Stjórnstöð ferðamála og verður unnin í samvinnu við íbúa jarðvangins. Sem mikilvægt innlegg í þá vinnu má geta þess að vönduð skýrsla um skipulagsmál í Skaftárhreppi var unnin af Hollenskum landslagsarkítektum NOHNIK og sérfræðingum í HÍ í samvinnu við heimamenn á liðnu ári. Vinnan var styrkt af hollenska ríkinu og kynnt stjórnsýslunni á fjölmennum fundi í húsakynnum Sambands Íslenskra Sveitarfélaga í Reykjavík í lok sumars. Óhætt er að segja að skýrslan hefur hlotið mikla athygli. Vonast er til að sú vinna og þekking sem byggst hefur upp nýtist í framhaldinu fyrir allan jarðvanginn við DMP vinnuna framundan. Bein slóð á skýrsluna: https://issuu.com/nohnik/docs/nohnik_-_destination_iceland_lq

Nýtt ferðamannakort í vinnslu
Nýtt ferðamannakort er í bígerð fyrir allt svæði Kötlu Geopark. Verður þetta í fyrsta skiptið sem jarðvangurinn er kynntur á heildstæðan hátt í samvinnu sveitarfélaganna þriggja með ferðamannakorti. Notað verður einfaldað jarðfræðikort sem dregur fram alþjóðlega mikilvæga jarðfræði - aðal ástæða þess að svæðið hefur hlotið vottun UNESCO.
GeoSkólar
Jarðvangar snúast um vernd og sjálfbæra nýtingu einstakra minja og náttúru en ekki síður um fræðslu þar um. GeoSkólar er nýtt verkefni sem grunnskólarnir Hvolsskóli, Víkurskóli og Kirkjubæjarskóli taka þátt í með Kötlu UNESCO Global Geopark frá og með Október 2016.
Markmiðið er að efla skólana enn frekar í námi og starfi er tengist jarðvanginum: jarðfræðisögu, vistfræði svæðisins og menningararfi. Útikennslu aðferðir verða efldar og staðfært kennsluefni hannað. Guðmundur Arngrímsson, stofnandi Cursus Iceland, hefur verið ráðinn til verkefnisins en hann hefur víðtæka reynslu af slíkri nálgun og þjálfun kennara í útikennslu í gegn um fyrirtæki sitt og fyrri störf. Á næstu vikum haustmánaða hefst samvinna við skólana af alvöru um mótun stefnunnar og innleiðingu verkefnisins auk þess sem skólarnir hafa sjálfir fjölmargt til brunns að bera úr sínu skólastarfi. Verkefnið GeoSkólar byggir á grunni, þekkingu og reynslu sambærilegra skóla í UNESCO jarðvöngum í Portúgal og  Finnlandi. Með þessari vinnu öðlast skólarnir einnig gullið tækifæri til samstarfs við aðra jarðvanga í heiminum í gegn um netverk UNESCO Global Geoparks. Þrír styrkir hafa verið veittir til að koma GeoSkólum á laggirnar, frá Menntamálaráðuneytinu, SASS og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Ný skilti sett upp 
Ný skilti verða sett upp á völdum stöðum til að auka vitund ferðamanna á náttúruvernd meðan á heimsókn þeirra stendur á viðkvæmum áningarstöðum. Skiltin eru fjármögnuð af Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og hönnuð af NOHNIK af beiðni Kötlu Geopark.
Áhugasömum er velkomið að panta skilti til að setja upp þar sem þurfa þykir. Frekari upplýsingar verða gefnar á heimasíðu jarðvangsins www.katlageopark.is.
Dagur sauðkindarinnar
Dagur sauðkindarinnar var haldinn hátíðlegur í Skeiðvangi á Hvolsvelli, 22. október sl. Hrútar og gimbrar voru dæmd og verðlaunuð. Ásta á Grjótá fékk verðlaun fyrir litfegursta lambið og ræktunarbú ársins var fjárbúið Skarðshlíð. Um 300 manns mættu og heppnaðist dagurinn vel.
 
Uppskeru- og þakkarhátíð í Skaftárhreppi
Hátíðin var sett í Kirkjuhvoli fimmtudaginn 3. nóvember af oddvita og stjórnarformanni Kirkjubæjarstofu Evu Björk Harðardóttur. Síðan hófst Ársfundur Kirkjubæjarstofu 2016 og stýrði Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri, fundinum. Fyrirlestrar voru fluttir um byggðamál er tengjast málefnum Skaftárhrepps. Erindin fjölluðu um framtíð Skaftárhrepps, nýtingu bújarða, menntun í heimabyggð og einkenni góðs samfélags. Opnuð var málverkasýning Agnieszka Majka Srocka. Umhverfisverðlaun Skaftárhrepps 2016 voru veitt og einstaklingsviðurkenningu hlaut Skúli Jónsson frá Þykkvabæ  og fyrirtækisviðurkenningu hlaut Bær hf,  vegna Icelandair Hótels Klausturs.Verðlaun fyrir heyrúlluskraut hátíðarinnar fengu ábúendur á Eystra Hrauni. Einar Melax flutti tónlist mill atriða og meðan gestir fengu sér veitingar í boði Menningarmálanefndar. Um kvöldið var síðan myndasýning Páls Ragnarssonar opnuð í Kirkjubæjarstofu og Guðmundur Óli Sigurgeirsson las úr bók sinni Við ána sem ekki var.
Á föstudagsmorgun var opið hús á leikskólanum Kærabæ og í Kirkjubæjarskóla þar sem nemendur höfðu skreytt skólann með Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna að þema. Í Kirkjuhvoli sýndi Einar Mikael töfrabrögð. Um kvöldið var samflot í sundlauginni og sviðaveisla í boði Búlandshjóna var haldin í félagsheimilinu Tunguseli.
Á Þykkvabæjarklaustri feldfé kynnt í boði Kristbjargar Hilmarsdóttur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir rúði feldfé eftir pöntun. Þar var lamb á grilli og kvæðamaðurinn Pétur Húni flutti rýmur af mikilli snilld. Á Kirkjuhvoli var Lilja Magnúsdóttir með sýningu á gömlum myndum úr Skaftárhreppi og gestir beðnir að bera kennsl á fólk á myndum. Svavar Knútur hélt tónleika í Kirkjuhvoli og dagskránni lauk í Systrakaffi þar sem Sveinn Waage var með uppistand.
Á sunnudag var uppskeru- og þakkarmessa í Prestsbakkakirkju og lauk svo hátíðinni með uppboði þar sem Þorsteinn Matthías Kristinsson var uppboðshaldari. Hátíðin heppnaðist í alla staði vel og safnaðist alls 531.627 kr. á uppboðinu og rennur upphæðin óskipt til heilsuleikskólans Kærabæ.
Árleg mæling á hopun Sólheimajökuls
Nemendur í 7. bekk Hvolsskóla fóru í árlega ferð í byrjun nóvember til að mæla hop Sólaheimajökuls. Mælingarnar hófust árið 2010 og hefur Björgunarsveitin Dagrenning verið stoð og stytta hópsins. Björgunarsveitin leggur til bát sem siglir með nemendur að pgs punkti úti í lóninu.
Regnboginn, lista- og menningarhátíð Mýrdælinga
Regnboginn, lista- og menningarhátíð Mýrdælinga var haldin með pompi og prakt 7.-9. október síðastliðinn. Víkurskóli, einn af grunnskólunum innan Kötlu Geopark, var með sýningu byggða á lagi Mýrdælinga, Minningar úr Mýrdal. Lagið fjallar m.a um náttúru, tröll og álfa. Í vikunni fyrir hátíðina fóru nemendur og kennarar í vettvangsferðir í kringum Vík og lærðu um mismunandi tegundir af steinum í Jarðvanginum. Steinarnir sem þau fundu voru m.a Hrafntinna og Basalt. Þau fengu að láni steina með mosa frá náttúrunni til að hafa sýninguna meira lifandi og eftir hátíðina skiluðu þau þeim aftur á sinn stað.
Copyright © *|2016|* *|Katla Geopark|*, All rights reserved.
 


This email was sent to <<Email Address>>
why did I get this?    unsubscribe from this list    update subscription preferences
Rangárþing eystra · Hlíðarvegur 16 · Hvolsvöllur 860 · Iceland

Email Marketing Powered by Mailchimp